Skúli Mogensen, sem leitt hefur hóp fjárfesta sem ætla sér að leggja nýtt hlutafé í MP banka, segir að hópur um 20 fjárfesta muni taka þátt í hlutafjáraukningunni, en hann segir að viðræður um málið langt komnar.
Skúli staðfestir að Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja, hefði dregið sig út úr hópnum, en hann segir að það hafi engin áhrif á gang mála. „Við munum vinna áfram að því að klára málið.“ Hann segist reikna með að það taki nokkrar vikur.
Skúli segir að meðal þeirra sem taki þátt í viðræðunum séu Lífeyrissjóður verzlunarmanna, TM og VÍS. „Þetta er dreifður hópur. Í honum eru um 20 fjársterkir aðilar.“ Stefnt er að því að auka hlutafé í MP banka um 5 milljarða.
„Við höfum unnið þetta mál í mjög nánu samstarfi við alla eftirlitsaðila. Þeir eru vel upplýstir um gang mála og okkur miðar vel áfram,“ sagði Skúli.