Hagstofan hefur leiðrétt bráðabirgðauppgjör sitt á þjóðhagsreikningum sínum fyrir síðasta ár. Leiðréttingin þýðir að hallinn á rekstri ríkissjóðs í fyrra var 95 milljarðar en ekki tæpir 73 milljarðar og útgjöldin voru um 23 milljörðum meiri en gert var ráð í fyrstu tölum.
Samkvæmt tilkynningu frá Hagstofunni þá tóku fyrstu tölur ekki til áfallinna ríkisábyrgða við árslok 2010. Þær námu 22,5 milljörðum og höfðu ekki verið taldar með í fyrstu útreikningunum. Sé tekið tillit til áfallinna ríkisábyrgða þá nam hallinn á rekstri ríkissjóðs sem hlutfalli af landsframleiðslu um 6% en ekki um 5% eins og fyrstu tölur gáfu til kynna. Miðað við leiðréttinguna námu heildarútgjöld ríkissjóðs í fyrra 578 milljörðum en ekki 555 milljörðum eins og kom fram í fyrstu tölum.