Sigurður Einarsson, fyrrum stjórnarformaður Kaupþings, segir í grein í Fréttablaðinu í dag yfirheyrsla yfir honum í Lundúnum í síðustu viku hafi staðið yfir í 15 mínútur. Hann hafi síðan verið frjáls ferða sinna og ekki þurft að leggja fram neina tryggingu.
Handtökurnar í Lundúnum og Íslandi voru á vegum Serious Fraud Office (SFO) í Bretlandi. Sigurður segir að sérstakur saksóknari á Íslandi hafi haldið því fram í upphafi að hann kæmi hvergi nærri þessum húsleitum heldur væru þær alfarið á vegum SFO í London.
„Á sama tíma mætti Björn Þorvaldsson aðstoðarsaksóknari á heimili mitt í London og reyndi að dyljast í stórum hópi innfæddra án þess að gera grein fyrir sér. Þegar á hann var gengið sérstaklega sagðist hann vera túlkur til aðstoðar ef einhver grunsamleg skjöl fyndust á íslensku. Hvort Björn hafi löggildingu sem slíkur læt ég ósagt um," segir Sigurður í greininni.
Í greininni gagnrýnir hann íslenska fjölmiðla harðlega fyrir að segja rangar fréttir og éta þær hver upp eftir öðrum. Hann vísar því meðal annars á bug að í gömlum bankahvelfingum Kaupþings í Lúxemborg liggi vandlega þvegnir leynisjóðir frá nafngreindu rússnesku gasfyrirtæki.
„Atvinnurógur og meiðyrði í fjölmiðlum eru að verða daglegt brauð. Hið rétta er að engin rússnesk fyrirtæki voru nokkru sinni með nokkur viðskipti við Kaupthing Luxembourg. Hið rétta er líka að við endurskipulagningu bankans voru allar innistæður í honum greiddar til eigenda sinna. Uppspuninn um rússneska eynisjóði og peningaþvætti er innistæðulaus þvættingur. Höfundinum Sölva Tryggvasyni er sama. Líka þeim sem gefa hann út. Og aðrir fjölmiðlar láta sér svona smotterí í léttu rúmi liggja," segir Sigurður.