Aukist hagvöxtur ekki umtalsvert á næstu misserum gæti ríkið þurft að brúa tugmilljarða gat umfram það sem þegar er fyrirséð. Gangi endurskoðaðar spár eftir gæti vantað 4-5% upp á landsframleiðsluna árið 2012 til þess eins að bæta fyrir það sem upp á vantaði á síðasta ári og nú í ár.
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra sagði í ræðu á þingi í vikunni að hvert prósent í hagvexti skilaði þjóðarbúinu 15 milljarða tekjum. Því er ljóst að um háar upphæðir er að tefla. Því sem upp á vantar þarf ríkið að mæta, ýmist með niðurskurði eða tekjuaukningu – skattahækkunum. Aðilar vinnumarkaðarins, sem reyna nú að ná kjarasamningum, hafa þrýst á ríkisstjórnina um að taka frumkvæði í því að liðka fyrir fjárfestingu þannig að umsvif hagkerfisins aukist og forsendur fyrir hækkun launa myndist.
Í umfjöllun um mál þessi í Morgunblaðinu í dag segist Kristján Þór Júlíusson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hafa þungar áhyggjur af stöðu ríkisfjármála, ekki síst í ljósi nýframkominna upplýsinga um áfallnar ríkisábyrgðir og hugsanlega aukafjárframlag til Íbúðalánasjóðs, umfram þá 33 milljarða sem gert var ráð fyrir við gerð fjáraukalaga nú í desember. Hann mun fara fram á að staðan verði rædd í fjárlaganefnd Alþingis nú strax eftir helgi.
Svo gæti farið að ríkissjóður þyrfti að leggja Íbúðalánasjóði til 15 milljarða króna til viðbótar við þá 33 sem samþykktir voru á fjáraukalögum í desember. Innspýtingin sem þá var samþykkt er ekki talin duga til þess að efla eiginfjárstöðu sjóðsins nægilega.