Breska blaðið Mail on Sunday hefur nokkuð fjallað um David Rowland, aðaleiganda Banque Havilland sem keypti rekstur Kaupþings í Lúxemborg. Blaðið fullyrðir í dag, að Rowland hafi árið farið með leynd til Líbíu ásamt Andrési Bretaprins árið 2008 til fundar við Múammar Gaddafi, einræðisherra Líbíu.
Í síðustu viku sagði Mail on Sunday, að Rowland hafi greitt 40 þúsund pund til að létta á skuldum Söruh Ferguson, fyrrverandi eiginkonu Andrésar. Þetta hafi gerst eftir að Andrés opnaði Banque Havilland í Lúxemborg formlega í október árið 2009.
Mail on Sunday segir í dag, að talið sé að Andrés hafi á fundi sínum með Gaddafi rætt um möguleika á því, að Abdelbaset al-Megrahi yrði látinn laus úr skosku fangelsi. Megrahi er eini maðurinn, sem hefur verið dæmdur fyrir að sprengja bandaríska farþegaflugvél yfir skoska bænum Lockerbie. Hann var látinn laus sumarið 2009 af mannúðarástæðum en hann var sjúkur af krabbameinu og var talinn eiga skammt eftir ólifað.
Gaddafi sagði síðar, að Andrés prins hefði beitt sér fyrir því að Megrahi yrði látinn laus.
Mail segir, að Buckinghamhöll hafi ekki verið útbær á upplýsingar um ferð Andrésar og Rowlands til Líbíu. Blaðið segist fyrst hafa leitað eftir upplýsingum frá höllinni á föstudag en svar barst um hádegisbil í gær. Sagði höllin, að Andrés hefði farið í eina opinbera heimsókn til Líbíu árið 2007 en ekki hitt Gaddafi og Rowlands hafi ekki verið í fylgdarliði hans.
En eftir nokkuð japl og jaml og fuður hafi háttsettir heimildarmenn loks viðurkennt, að prinsinn hafi hitt Gaddafi í Líbíu árið 2008 og einnig við tvö önnur tækifæri. Þá hafi talskona hallarinnar í raun viðurkennt, að Rowlands hafi farið með Andrési til Líbíu.
Í yfirlýsingu frá Buckinghamhöll, sem Mail vitnar til, segir að Rowland hafi ekki setið neina einkafundi sem hertoginn af York hafi átt með Gaddafi höfuðsmanni. Höllin tjái sig ekki um einkaheimsóknir meðlima konungsfjölskyldunnar. Þeir taki stundum fólk með sér í heimsóknir innan Bretlands og til útlanda og þessir einstaklingar greiði kostnaðinn við ferðirnar sjálfir.
Mail on Sunday rifjar upp í dag, að fjárfestingarsjóður Líbíustjórnar hafi næstum verið búinn að kaupa rekstur Kaupþings í Lúxemborg árið 2009.
Eftir að Kaupþing í Lúxemborg féll haustið 2008 eins og móðurbankinn á Íslandi var endurskoðunarfyrirtækið Pricewaterhouse-Coopers útnefnt skiptaráðandi og hóf viðræður við hugsanlega kaupendur.
Í skýrslu skilanefndar Kaupþings til kröfuhafa kom fram, að skrifað hefði verið undir bráðabirgðasamkomulag um að selja Fjárfestingarsjóði Líbíu bankann. Ekki varð hins vegar af kaupunum og Rowland keypti bankann í júlí 2009.
Segir blaðið, að Kaupþing í Lúxemborg hafi veitt mörg af þeim umdeildu lánum, sem bræðurnir Robert og Vincent Tchenguiz fengu en breska fjársvikalögreglan rannsakar nú lánveitingar og hrun Kaupþings.