Markmið Samtaka atvinnulífsins er að ljúka kjaraamningaviðræðum á næstu tveimur vikum. „Við höfum verið að ræða bæði við ríkisstjórnina og við fulltrúa launþega um allmörg mál,“ segir Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA.
„Það er ekki óyfirstíganlegt bil á milli SA og ASÍ, en við þurfum að láta á það reyna gagnvart ríkisstjórninni hvort grundvöllur sé fyrir hinni svokölluðu atvinnuleið, sem byggist á aukinni fjárfestingu. Eins og staðan er núna er atvinnulífið ekki að endurnýja sig og það er stóralvarlegt mál bæði til lengri og skemmri tíma. Ef okkur tekst ekki að koma hjólum atvinnulífsins í gang horfum við fram á frekari niðurskurð og skattahækkanir hjá ríkinu. Mönnum er ekki að takast að viðhalda lífskjörum landsmanna ef atvinnulífið er ekki að endurnýja sig,“ segir Vilhjálmur.
Hann segir þrennt standa í veginum fyrir fjárfestingu í atvinnulífinu. Í fyrsta lagi hafi starfsumhverfi fyrirtækja versnað með hærri sköttum, gjaldeyrishöftum og öðrum sambærilegum atriðum. Í öðru lagi haldi sjávarútvegurinn að sér höndum í fjárfestingu vegna óvissu um framtíð fiskveiðistjórnunarkerfisins og í þriðja lagi þurfi að setja í gang stærri verkefni, hvort sem það eru virkjanir og stóriðuframkvæmdir, eða vegagerð og bygging sjúkrahúsa.