Þorsteinn Þorsteinsson, formaður stjórnar Bankasýslunnar, segir að stjórn stofnunarinnar telji ekki að með ákvörðun sinni að styðja ákvörðun um laun forstjóra Arion banka hafi Kristján Jóhannsson, fulltrúi Bankasýslunnar í stjórn bankans, brotið gegn eigendastefnu ríkisins.
„Við hefðum talið æskilegt og eðlilegt að stjórnarmaðurinn hefði metið það þannig af sinni eigin fyrirhyggju að þetta væri mál sem ekki væri eðlilegt að fulltrúi ríkisins tæki þátt í,“ segir Þorsteinn.
Ekki er gerð athugasemd við störf fulltrúa Bankasýslunnar í stjórn Íslandsbanka, en hann sat hjá í sambærilegu máli þegar tekin var ákvörðun um laun forstjóra bankans.
Þorsteinn segir Bankasýsluna ekki hafa orðið fyrir pólitískum þrýstingi vegna málsins. Ákvörðun hennar hafi verið tekin um miðja viku „þannig að t.d. þetta viðtal við forsætisráðherra sem var á laugardag gat ekki haft nein áhrif á okkur.“
Elín Jónsdóttir, forstjóri Bankasýslunnar, vildi ekki tjá sig um málið, þar sem það væri á forræði stjórnar Bankasýslunnar.
Kristján Jóhannsson hafnaði boði Bankasýslunnar á föstudag um að segja af sér vegna stuðnings síns við ákvörðun um laun forstjóra bankans. Í gær tilkynnti Bankasýslan að hún myndi ekki endurnýja umboð Kristjáns í stjórn bankans á aðalfundi hans síðar í vikunni.
„Ég sagðist frekar vilja standa með minni samvisku í þessu máli,“ segir Kristján. „En þetta kemur mér verulega á óvart vegna þess að öll samskipti mín við Bankasýsluna hafa verið fagleg og opin og góð.“