Aðstoðarforstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins segir, að vestræn ríki standi frammi fyrir því, að vaxtakostnaður muni hækka umtalsvert á sama tíma og skuldir ríkjanna hafi hlutfallslega ekki verið hærri frá síðari heimsstyrjöld.
John Lipsky sagði í ræðu, sem hann flutti í Peking í Kína, að þróuð iðnríki eigi á hættu að lenda í ríkisfjármálakreppu og grípa verði til róttækra ráðstafana til að draga úr skuldum.
Sagði hann að Bandaríkin og Japan yrðu að leggja fram trúverðugar áætlanir um hvernig böndum verði komið á fjárlagahalla.
Hann sagði útlit fyrir, að meðalvextir á lánum helstu iðnríkja heims muni hækka um 1-1,5 prósentur á sama tíma og skuldirnar fari sívaxandi.
Lipsky sagði, að iðnríkin hafi verið heppin vegna þess að fjármagnskostnaður hafi verið lítill um langan tíma en það kunni að breytast.