Samdrátturinn í íslenska hagkerfinu hefur verið bæði dýpri og staðið lengur yfir en að meðaltali í aðildarríkjum Evrópusambandsins. Á meðan hagvöxtur komst á skrið á meginlandinu í fyrra varð hans ekki vart hér á landi á árinu.
Þannig dróst landsframleiðslan saman á síðasta fjórðungi í fyrra miðað við þriðja fjórðung sama ár, en á þeim fjórðungi mældist í fyrsta sinn hagvöxtur hér á landi, frá bankahruni, og þó svo að stofnanir á borð við Seðlabankann og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn spái hagvexti á þessu ári er um að ræða fremur lítinn vöxt miðað við það sem á undan er gengið og eru spárnar háðar töluverðri óvissu.
Þannig hefur AGS bent á í endurskoðunum sínum á efnahagsáætluninni að tafir á fjárfestingu á uppbyggingu í tengslum við orkufrekan iðnað hafi haldið niðri vexti undanfarin misseri.