Már Guðmundsson, seðlabankastjóri, segir að forsendur ríkissjóðs til erlendrar lántöku hafi batnað mikið. Icesave-þjóðaratkvæðagreiðslan sé eina hættan í þessum efnum.
Nefndi seðlabankastjórinn máli sínu til stuðnings að undirliggjandi viðskiptaafgangur væri fyrir hendi, ríkisfjármál hefðu þróast í samræmi við áætlanir og staða Íslands væri að betri staða en annarra þjóða að því leyti. Stöðugleiki ríki í hagkerfinu, verðbólga sé á markmiði og skuldatryggingaálag fari lækkandi og sé lágt. „Eina sem ógnar þessari stöðu er eitthvað, er að lánshæfisfyrirtækin hafa sagt það, að ef niðurstaðan úr þjóðaratkvæðagreiðslunni verði neikvæð, gæti það haft slæm áhrif á lánshæfismatið,“ sagði Már, og vísaði þar til þjóðaratkvæðagreiðslunnar um hvort Icesave-lögin haldi gildi sínu 9.apríl næstkomandi.
„Öllum áhyggjum af greiðslufalli ríkissjóðs hefur verið eytt algerlega,“ sagði Már og nefndi meðal annars að uppkaup Seðlabankans á erlendum skuldum ríkissjóðs hefðu hjálpað þar til.