Alþjóðleg rannsókn er hafin á því hvort nokkrir af stærstu bönkum heims hafi sent frá sér rangar upplýsingar í því skyni að hafa áhrif á svokallaða LIBOR-vexti, sem aftur hafa áhrif á vaxtakjör um allan heim.
Upp komst um rannsóknina þegar svissneski bankarisinn UBS greindi frá því á dögunum að eftirlitsaðilar væru að rannsaka mögulega misnotkun hjá bankanum.
LIBOR-vextir eru ákvarðaðir daglega, í grófum dráttum með þeim hætti að stærstu bankar heims senda inn upplýsingar um þá vexti sem þeir telja sig geta notið á nýjum lánum. Hæstu og lægstu vextirnir eru felldir út, og miðgildi þeirra sem eftir standa notaðir sem viðmið. Fjármálagjörningar um allan heim nota LIBOR-vexti sem viðmið, og áætlað að samanlögð fjárhæð þeirra sé um 350 þúsund milljarðar bandaríkjadala.
Hafin er rannsókn á hugsanlegri misnotkun breska bankans Barclays, en yfirlit benda til þess að bankinn hafi gefið upp hærri vexti en efni stóðu til. Þetta skýrist meðal annars af því að bankinn hafi verið „nettó-lánveitandi“ og því haft hag af hærri vöxtum.
Þá er verið að rannsaka hvort ólögmæt samskipti hafi átt sér stað milli miðlara Barclays og fjárstýringar bankans, en síðarnefnda einingin er sú sem skilar inn vaxtaupplýsingum.
Auk ofangreindra hefur Citigroup og WestLB verið stefnt vegna málsins. Rannsóknin teygir anga sína nú þegar til Bandaríkjanna, Bretlands og Japan.