Björgólfur Thor Björgólfsson furðar sig á frétt The Telegraph frá því gær á vefsíðu sinni í dag. Í frétt Telegraph kom fram að efnahagsbrotadeild bresku lögreglunnar, Serious Fraud Office (SFO), væri að rannsaka starfsemi Landsbankans síðustu dagana og vikurnar fyrir hrun hans í október 2008 og að verið sé að rekja fjármagnsflutninga sem tengjast Icesave-reikningnum.
Björgólfur Thor segir að þegar hafi verið gengið úr skugga um að ekkert athugasvert sé við ráðstöfun á innlánum bankans. Bendir hann á að slitastjórn Landsbankans hafi látið athuga þetta og að DV hafi fjallað um málið.
„Fjármálaeftirlit Breta, FSA, var í nánu sambandi við stjórnendur Landsbankans sumarið 2008 og þar til bankinn féll um haustið og fylgdist náið með rekstri útibús bankans í London. FSA hefði ekki komist hjá því að koma auga á óeðlilega fjármagnsflutninga, hefðu þeir átt sér stað. Þá kannaði Rannsóknarnefnd Alþingis aðdraganda falls bankanna í þaula, en í skýrslu hennar eru ekki tilgreind nein dæmi um ólögmæta fjármagnsflutninga frá útibúinu í London eða dótturfélagi Landsbankans í Bretlandi, Heritable Bank. Í frétt á Vísi.is í dag kemur jafnframt fram, að millifærslur af Icesave-reikningunum hafi ekki verið sjálfstætt rannsóknarefni hjá embætti sérstaks saksóknara hér á landi,“ skrifar Björgólfur á síðu sína.
Grein Björgólfs Thors Björgólfssonar.