Íslendingar eru ekki sérlega bjartsýnir um þessar mundir, ef marka má væntingavísitölu Gallup, sem birt var í dag. Þótt vísitalan sé hærri en hún var fyrir ári lækkaði hún frá því í febrúar.
Vísitalan er 57,8 stig í mars og lækkaði um 2,1 stig frá því í febrúar. Fram kemur í Morgunkorni Greiningar Íslandsbanka, að frá því að kreppan skall á hafi vísitalan hæst farið upp í 69,9 stig sem var í ágúst síðastliðnum, en lægst hafi hún mælst 19,5 stig sem var í ársbyrjun 2009.
Vísitalan mælir væntingar neytenda til efnahags- og atvinnulífsins, og þegar vísitalan er undir 100 stigum eru fleiri neytendur svartsýnir en bjartsýnir.
Allar undirvísitölur Væntingavísitölunnar, að mati á atvinnuástandinu undanskildu, lækkuðu á milli febrúar og mars. Þannig lækkuðu væntingar íslenskra neytenda til aðstæðna í efnahags-og atvinnumálum þjóðarinnar eftir 6 mánuði um 3 stig og mælist sú vísitala nú 88,3 stig.
Mat á núverandi ástandi lækkaði mun minna í stigum talið, eða um 0,7 stig, en sú vísitala mælist aðeins 12 stig. Mest var lækkunin á vísitölunni sem mælir mat á efnahagslífinu en hún lækkar um heil 8,1 stig milli mánaða og mælist nú 49,8 stig.
Á hinn bóginn hækkar sú vísitala sem mælir mat á
atvinnuástandinu lítillega, eða sem nemur um 1,9 stig, og mælist hún nú
62 stig.