Tap á rekstri írska bankans Anglo Irish Bank nam 17,7 milljörðum evra, nærri 2900 milljörðum króna, á síðasta ári. Er þetta mesta tap í sögu bankans og meira en sérfræðingar höfðu spáð.
Í tilkynningu segir, að síðustu 12 mánuðir hafi verið afar erfiðir, bæði hjá bankanum og í írska efnahagslífinu.
Írski seðlabankinn mun síðar í dag birta niðurstöður úr álagsprófum, sem lögð voru fyrir fjóra írska banka: Allied Irish Banks, Bank of Ireland, the Educational Building Society og Irish Life & Permanent. Viðskipti með hlutabréf tveggja fyrstu bankanna voru stöðvuð í morgun í kauphöllinni í Dublin. Búist er við að niðurstöður prófanna sýni að írska ríkið þurfi að leggja bönkunum til milljarða evra til viðbótar.