Tyrkneska hagkerfið óx um 9,2% á síðasta fjórðungi ársins 2010 og um 8,9% á árinu öllu, samkvæmt tölum, sem tyrknesk stjórnvöld birtu í morgun. Er þetta meiri hagvöxtur en spáð hafði verið.
Tyrkneska ríkisstjórnin hafði spáð 7% hagvexti á árinu 2010. Í raun var hagvöxturinn 12% á fyrsta fjórðungi ársins, 10,3% á öðrum fjórðungi og 5,2% á þeim þriðja. Verg landsframleiðsla á mann var 10.079 dalir á síðasta ári eða 1,16 milljónir króna.
Árið 2009 dróst tyrkneska hagkerfið saman um 4,8%.
Kosið verður til þings á Tyrklandi í júní. Þar sækist Recep Tayyip Erdogan, forsætisráðherra, eftir endurkjöri en stjórnmálaflokkur hans. Réttlætis- og þróunarflokkurinn, hefur farið með völd síðustu tvö kjörtímabil.