27,2 milljarða hagnaður Landsbanka

Hagnaður NBI hf. (Landsbankans) nam 27,2 milljörðum króna eftir skatta á árinu 2010. Hagnaður ársins 2009 nam 14,3 milljörðum króna.

Steinþór Pálsson, bankastjóri, segir í tilkynningu að afkoman á árinu 2010 hafi verið góð og bankinn standi styrkum fótum. Þrengingar og óvissa í efnahagsmálum séu viðvarandi og því sé mikilvægt að Landsbankinn búi yfir miklum styrk, þannig að hann geti veitt öfluga fjármálaþjónustu og verið það hreyfiafl í samfélaginu sem starfsmenn hans hafi einsett sér að hann verði.

Sérstök gjaldfærsla er í reikningnum til að mæta dómum sem fallið hafa á árinu 2010 og snemma árs 2011 um lögmæti lánasamninga erlendra lána hjá bæði einstaklingum og fyrirtækjum.  Hún nemur 18,1 milljarði króna.  

Eiginfjárhlutfall  Landsbankans er nú 19,5% og hefur hækkað um 4,6% á árinu. Núverandi eiginfjárhlutfall er þó vel umfram það  16% lágmark eiginfjárhlutfalls sem Fjármálaeftirlitið gerir kröfu um.

Stærsti liðurinn í hagnaðinum er vaxtamunur. Vaxtamunur er nú 2,3% af heildareignum.  Í tilkynningu kemur fram, að vaxtamunurinn skýrist af því að ávöxtunarkrafa bankans á stóran hluta útlána sem keypt eru af LBI, sé föst, óháð því hvernig innlánsvextir þróast.

Fram kemur í ársreikningi Landsbankans, að mánaðarlaun Steinþórs Pálssonar námu 1,1 milljón króna á mánuði á síðasta ári og laun og bónusar helstu framkvæmdastjóra bankans námu 1,5 milljónum króna á mánuði. Laun  fyrrverandi bankastjóra námu 1,3 milljónum króna á mánuði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK