Í úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í morgun í málum varðandi heildsöluinnlán í Landsbankanum og Glitni felst að dómurinn staðfestir gildi hinna svokölluðu neyðarlaga, að sögn Herdísar Hallmarsdóttur, sem situr í slitastjórn Landsbankans.
„Í úrskurðinum eru nokkur atriði, sem vert er að nefna. Héraðsdómur staðfestir að heildsöluinnlán séu innstæða í skilningi laga um innstæðutryggingar. Þá er því hafnað af dómnum að forgangur takmarkist við 20.800 evra markið, en hann er einnig mjög afdráttarlaus þegar kemur að neyðarlögunum,“ segir Herdís.
„Héraðsdómur fellst hvorki á að setning neyðarlaganna hafi brotið gegn eignarréttarákvæði stjórnarskrár né jafnræðisákvæði hennar og er ekki neinn vafi í orðalagi úrskurðarins um gildi neyðarlaganna.“
Héraðsdómur féllst einnig á það með slitastjórn Landsbankans að greiða ætti dráttarvexti af heildsöluinnlánum í samræmi við ákvæði breskra og hollenskra laga, en heildsöluinnstæðueigendur höfðu gert kröfu um íslenska dráttarvexti.
„Erlendu dráttarvextirnir eru 6-8 prósent en íslenskir dráttarvextir eru 25 prósent og munurinn því tölurverður. Við höfum hins vegar í okkar áætlunum gert ráð fyrir því að við myndum greiða þessa lægri vexti og hefur úrskurður héraðsdóms því ekki áhrif á áætlanir um endurheimtur.“