Í úrskurðum Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í gær í málum varðandi heildsöluinnlán í Landsbankanum og Glitni felst að dómurinn staðfestir gildi neyðarlag-anna, að sögn Herdísar Hallmarsdóttur, sem situr í slitastjórn Landsbankans.
Breyta úrskurðirnir engu varðandi áætlaðar endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans. Þær áætlanir gerðu ráð fyrir því að heildsöluinnlán væru tryggðar innstæður.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir, að ólíkt Landsbankanum hafði Glitnir hafnað kröfum heildsöluinnlánseigenda um forgang í þrotabúið. Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, segir þessar kröfur nema um 60 milljörðum króna í tilviki Glitnis. Hún segist telja ástæðu til að kæra málið til Hæstaréttar.