Monica Caneman, stjórnarformaður Arion-banka, fær 1,4 milljónir á mánuði fyrir störf sín. Þetta staðfestir Reynir Karlsson, stjórnarformaður Kaupskila sem er eignarhaldsfélag Kaupþings sem á Arion að stærstum hluta.
Á aðalfundi bankans á dögunum var samþykkt að hækka laun erlendra stjórnarmanna um helming. Engar breytingar voru hinsvegar gerðar á launum þeirra Íslendinga sem sitja í stjórn bankans. Þeir fá 350 þúsund krónur á mánuði fyrir störf sín og þar af leiðandi fær Måns Höglund, sem er sænskur, 700 þúsund krónur fyrir stjórnarsetuna og Monica Caneman sem fyrr segir 1,4 milljónir á mánuði fyrir stjórnarformennskuna.
Að sögn Reynis var tekin ákvörðun um að hækka laun erlendu stjórnarmannanna til þess að tryggja starfskrafta þeirra. Hann segir að eigendur bankans telji mikilvægt að erlendir sérfræðingar sitji í stjórn hans og það sé veigamikill þáttur í uppbyggingu á trausti bankans. Sérstaklega þegar að mögulegri fjármögnun bankans erlendis. Reynir segir að tveir erlendir stjórnarmann hafi hætt í fyrra og það hafði ekki verið launungamál að óánægja þeirra með starfskjörin hafi ráðið þeirri ákvörðun.