Spánverjum sem sækja um atvinnuleysisbætur fjölgaði í mars, áttunda mánuðinn í röð. Alls bættust 34.406 manns við á bótaskrá sem telur nú alls 4,3 milljónir manna sem er met að sögn vinnumálaráðuneytisins.
Tölur yfir heildaratvinnuleysi á Spáni eru birtar á þriggja mánaða fresti og eru þá meðtaldir þeir sem ekki þiggja bætur. Í febrúar síðastliðnum voru 4,7 milljónir Spánverja án atvinnu sem er um 20,5% þjóðarinnar. Atvinnuleysi á Spáni er því um tvöfalt hærra en meðaltalið á evrusvæðinu.
Spænsk yfirvöld standa í hörðum niðurskurðaraðgerðum til að lækka skuldir þjóðarbúsins og segjast þau ekki búast við því að hagkerfið rétti úr kútnum fyrr en í allra fyrsta lagi í lok þessa árs. Þjónustuiðnaðurinn stendur undir um 70% spænska hagkerfisins og hafa uppsagnir verið blóðugastar þar. Í byggingariðnaðinum hefur ástandið skánað ögn og atvinnuleysið dregist saman um 4,4%.
Mestur er vandinn meðal ungs fólks á Spáni. Í mars var 12.830 manns undir 25 ára aldri sagt upp störfum og mælist atvinnuleysi meðal ungra Spánverja nú um 43,5%.