Alþjóðlega greiningarfyrirtækið Moody's lækkaði lánshæfiseinkunn portúgalska ríkisins í morgun um einn flokk, úr A3 í Baa1, og sagðist reikna með að lækka einkunnina frekar í ljósi óvissunnar sem ríkti í portúgölskum efnahagsmálum og stjórnmálum.
Önnur alþjóðleg matsfyrirtæki hafa áður lækkað einkunn Portúgals í kjölfar þess að þing landsins felldi frumvarp um mikinn niðurskurð ríkisútgjalda. Í kjölfarið sagði ríkisstjórnin af sér.
Sívaxandi líkur eru taldar á að Portúgal verði að leita utanaðkomandi aðstoðar líkt og Grikkland og Írland gerðu á síðasta ári, til að endurskipuleggja ríkisfjármálin.
Ávöxtunarkrafa 10 ára portúgalskra ríkisskuldabréfa hækkaði í gær, tíunda viðskiptadaginn í röö, og var 8,5%.