Hugsanlegt er að íslenskir bankar þurfi að endurreikna öll erlend lán, bæði til einstaklinga og fyrirtækja. Áður hefur verið talið að gengistryggð lán einstaklinga þurfi aðeins að sæta endurútreikningi.
Áhrifin gætu verið nokkur á NBI, þar sem sá banki hefur um 235 milljarða króna af erlendum lánum á sínum bókum. En sem kunnugt er ein stærsta eignin í eignasafni skilanefndar Landsbankans, hinu sama eignasafni og á að ganga upp í Icesave, skuldabréf á NBI. Endurútreikningur erlendra lána skilar yfirleitt um 35-40% niðurfærslu.
Þrjú, stór mál
Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu fyrir skömmu að fjölmyntalán sem einkahlutafélag tók á árinu 2008 stæðist ekki lög um vexti og verðtryggingu. Dómurinn féll vegna frávísunarúrskurðar Héraðsdóms Reykjavíkur.
Þann 16.júní á síðasta ári felldi Hæstiréttur þann dóm að gengisbundin lán til einstaklinga væru ólögmæt. 14. febrúar síðastliðinn féll síðan annar dómur í Hæstarétti þar sem lögaðili var talinn eiga samskonar réttindi og einstaklingur, það er að segja gengisbundið lán var dæmt ólögmætt. Lánið átti samkvæmt dómnum að sæta endurútreikningi, líkt og í tilfelli einstaklinga. Þann 23. febrúar síðastliðinn féll loks dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur, þar sem lán til fyrirtækis að nafni Motormax var dæmt ólögmætt, en var þar um svokallað fjölmyntalán að ræða. Þetta mál hefur enn ekki verið klárað í Hæstarétti.
Hins vegar var áðurnefndur frávísunarúrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur kærður til Hæstaréttar fyrir skömmu, vegna fjarveru skuldara fyrir dómi. Þar var um að ræða mál sem NBI höfði gegn einkahlutafélagi, sem skuldaði fjölmyntalán. Sá úrskurður gekk í Hæstarétti 8.mars síðastliðnum. Af úrskurðinum má ráða að Hæstiréttur hafi tekið afstöðu til lögmætis fjölmyntalána, og dæmt þau ólögmæt. Eiríkur S. Svavarsson, lögmaður, segist í samtali við mbl.is vera sammála þeim skilningi. Annað verði vart ráðið af úrskurðinum.
Eiríkur segir að samkvæmt þessum þremur dómum Hæstaréttar, líti út fyrir að nær öll erlend lán íslenskra banka þurfi að sæta endurútreikningi.
Samkvæmt tölum frá Seðlabanka Íslands nam bókfært virði gengisbundinna lána sem íslenskrar lánastofnanir eru með á bókum sínum um 835 milljörðum króna, um áramótin síðustu.