Þeir sem hafa áhyggjur af ákvörðunum EFTA dómstólsins um meinta mismunun Íslendinga gagnvart útlendingum eiga að hafna Icesave samningnum að mati Reimars Péturssonar, hæstaréttarlögmanns. Er það vegna þess að fyrir EFTA dómstólnum er nú þegar mál þar sem tekist er á um lögmæti gjaldeyrishafta, sem Hæstiréttur dæmdi að skyldi sent þangað í febrúar síðastliðnum.
„Ríkið á að skila greinargerð eftir nokkrar vikur og von er á dómi á næstu mánuðum. Ef EFTA dómstóllinn dæmir að gjaldeyrishöftin standist ekki EES samninginn mun krónan veikjast um tugi prósenta vegna þess að krónueignir útlendinga að fjárhæð um 450 milljarðar færu þá á hreyfingu. Afleiðing þess yrði sú að Icesave samningarnir - ef samþykktir væru - myndu reynast óviðráðanlegir,“ segir Reimar.
Hann segir að málið fyrir EFTA dómstólnum um gjaldeyrishöftin muni snúast um reglu EES samningsins um frjálsa fjármagnsflutninga og þá mismunun sem gjaldeyrisreglurnar gera á innlendum aðilum og útlendum. „Sú mismunun er fólgin í því að útlendir aðilar mega ekki nota krónurnar sínar - ekki einu sinni til að kaupa sér ís - meðan að Íslendingar mega það. Það er til muna auðveldara að rökstyðja ólögmæti þessarar mismununar en þeirrar sem var gerð á innlendum og erlendum útibúum í aðgerðunum 2008.“
Reimar segir að í aðgerðirnar 2008 hafi verið ráðist af sannanlegri neyð. „Af þessari ástæðu eiga þeir sem hafa áhyggjur af ákvörðunum EFTA dómstólsins um mismunun að hafna Icesave samningnum. Eina málið sem liggur fyrir þeim dómstóli í dag er þetta vegna gjaldeyrishaftanna og ef það tapast væru skyldur okkar samkvæmt Icesave samningunum þegar í stað óyfirstíganlegar. Komi á síðari stigum fram kröfur vegna neyðaraðgerðanna í október 2008 þá stæðum við mun betur að vígi þar en í þessu máli um gjaldeyrishöftin.“