Meðal þeirra sem taka þátt í hlutafjáraukningu MP banka er tryggingafélögin VÍS og Tryggingamiðstöðin, auk systkinanna Guðmundar Jónssonar og Berglindar Jónsdóttur. Lífeyrissjóður verzlunarmanna eignast jafnframt stóran hlut.
Fjárfestirinn Skúli Mogensen hefur leitt fjárfestahópinn sem tekur þátt í hlutafjáraukningunni. Fjárfestingafélag Skúla, Títan, eignast 15% í MP eftir hlutafjáraukninguna. Áðurnefnd Guðmundur og Berglind eignast um 10%, Lífeyrissjóður verzlunarmanna 10% og áðurnefnd tryggingafélög ívið minna.
Guðmundur og Berglind Jónsbörn voru í þeim fjárfestahóp sem var langt kominn með að kaupa ráðandi hlut í tryggingafélaginu í Sjóvá síðasta haust, en sem er kunnugt er sagði sá kaupendahópur sig frá söluferlinu. Svo virðist sem Guðmundur og Berglind hafi því fundið fé sínu farveg með kaupum á stórum hlut í MP banka.
Fram hefur komið að erlendir fjárfestar muni kaupa um fimmtungshlut í MP banka. Þar á meðal er Joseph Lewis, sem hefur hingað til verið þekktur fyrir að eiga stóran hlut í knattspyrnuliðinu Tottenham. Einnig er breska Rowland-fjölskyldan meðal erlendu fjárfestanna. Rowland-fjölskyldan er ekki ókunn fjárfestingum í íslenskum fjármálafyrirtækjum, en eftir gjaldþrot Kaupþings haustið 2008 keypti fjölskyldan starfsemi bankans í Lúxemborg og endurskírði Banque de Havilland.
Loks eignast Drómi, eignaumsýslufélag eigna þrotabúa Spron og Frjálsa fjárfestingabankans, nokkurra prósenta hlut í MP banka. Skýringin á því er sú að MP banki keypti NB-netbankann af þrotabúi Spron í mars 2009. Í kjölfarið eignaðist Drómi kröfu á MP banka, sem er breytt í hlutafé í þeirri hlutafjáraukningu sem verður endanlega gengið frá á hluthafafundi bankans í dag.
Uppfært 11.54: Sjólaskip koma ekki að kaupum á hlutafé í MP banka, heldur eru það systkinin Guðmundur og Berglind, sem kennd hafa verið við fyrirtækið.