Það væri fljótfærni að útiloka alla kosti í gjaldeyrismálum nema þá sem kalla annað hvort á gjaldeyrishöft eða inngöngu í Evrópusambandið. Bæði sterk króna og einhliða upptaka eru kostir sem við eigum að taka alvarlega, að mati Jóns Steinssonar, hagfræðings. Seðlabankinn bað Jón, sem og tvo aðra sérfræðinga í peningamálum, þá Friðrik Má Baldursson og Yngva Örn Kristinsson, að skila inn áliti á skýrslu Seðlabankans um peningamálastefnu.
Í áliti Jóns segir að Íslendingar hafi fjóra kosti í peningamálum, en ekki tvo. Hann segir að það sé ekkert náttúrulögmál að íslenska krónan þuri að vera veikur gjaldmiðill með himinháa vexti. Nefnir hann sem dæmi að svissneski frankinn sé sterkur og stöðugur gjaldmiðill með lága vexti þrátt fyrir að Sviss sé lítið land. Sterk króna sé þó háð því að bjargfastur almennur pólitískur stuðningur sé við aðhaldssama peningamálastefnu. Vandinn, að mati Jóns, er að slíkur stuðningur hafi aldrei verið fyrir hendi á Íslandi. „Það hefur verið þjóðaríþrótt stjórnmálamanna og landsmanna almennt að skammast í Seðlabankanum ef hann hækkar vexti og reynir að halda aftur af eyðingu verðgildis krónunnar.“
Jón segir að annar möguleiki sé að Íslendingar haldi krónunni, en breyti ekki viðhorfum sínum til peningamála. Í því tilviki sé líklega þörf á áframhaldandi gjaldeyrishöftum. Ef höftum væri lyft án þess að sannfæra fjármagnseigendur um að allt annar og meiri pólitískur stuðningur sé fyrir aðhaldssamri peningamálastefnu í framtíðinni muni hundruð milljarða flýja land og einungis koma til baka ef vextir verða hér himinháir. Slíkt vaxtastig myndi hins vegar drepa allt atvinnulíf á Íslandi.
Evra með eða án blessun ESB
Þriðji möguleikinn sem Jón nefnir er að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Þannig afsali Íslendingar forræði yfir peningamálum og flytji inn þann trúverðugleika sem evrópski seðlabankinn hefur. Minni sveigjanleiki væri það verð sem Íslendingar myndu greiða fyrir meiri stöðugleika og lægri vexti. Vandinn við evru í gegnum ESB er, að sögn Jóns, sá að fleira hangir á spýtuinni þegar kemur að sambandinu en bara evran. Nauðsynlegt sé að ná góðum samningum auðlindir þjóðarinnar, en önnur stór spurning sé stefna ESB þegar kemur að fjárhagsvandræðum aðildarríkja þess. Stefna ESB á síðustu misserum hafi verið sú að eigendur skuldabréfa banka og aðildarríkja tapi aldrei eyri. „Ef samtryggingar skuldabréfaeigenda verður áfram stefna ESB er það verulegur ókostur við inngöngu í sambandið. Slík stefna leiðir af sér að þjóðir sem standa sig betur í fjármálum þurfa að greiða skuldir hinna. Og þrátt fyrir allt sem hefur gengið á síðustu ár er skuldastaða íslenska ríkisins betri en staða margra ríkja innan Evrópusambandsins,“ segir Jón.
Fjórði möguleikinn er að mati hans að taka einhliða upp evru. Hann er ósammála því að sú leið sé ótæk, þótt hún hafi vissulega ókosti, en það hafi hinar leiðirnar þrjár líka. Hann segir að spurningin um það hvort ríkið geti verið bakhjarl bankakerfisins í neyð snúast um lánstraust ríkisins, ekki það hvort krónan er fyrir hendi. Áhlaupi á íslenska bankakerfið fylgi einatt áhlaup á krónunna svo tilvist hennar hjálpar lítið ef ríkið vill stemma stigu við slíku áhlaupi. Hann segir að ESB líti það mjög hornauga ef ríki taka upp evru einhliða, en erfitt sé að segja hvort það sé meira í orði en á borði. Hugsanlega væri hagstæðara, frá pólitísku sjónarmiði, að taka einhliða upp dönsku krónuna. Gengi hennar er fast við gengi evru og vextir í Danmörku nánast þeir sömu og á evrusvæðinu. Annar kostur sé að taka einhliða upp Bandaríkjadal, en ólíklegt sé að Bandaríkjastjórn muni bregðast illa við slíkri upptöku.
Sérfræðiálit um peningamálastefnu á síðu Efnahagsráðuneytis.