Fellst á tímabundna aðstoð til Byrs

Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) ákvað í dag að samþykkja tímabundið ríkisaðstoð til stuðnings við Byr hf.

ESA óskar eftir því að íslensk stjórnvöld leggi fram innan sex mánaða áætlun um endur-skipulagningu nýja Byrs eða slit þess félags. Segist ESA ekki geta tekið endanlega afstöðu til ríkisaðstoðarinnar fyrr en slík áætlun liggur fyrir.

Í kjölfar yfirtöku Fjármálaeftirlitsins á Byr sparisjóði í apríl 2010 stofnaði íslenska ríkið Byr hf.,  sem er hlutafélag að fullu í eigu ríkissjóðs. Hefur nýi Byr tekið yfir allar eignir, vissar skuldir og starfsemi gamla Byrs, sem er í slitameðferð.  Er fyrirtækið nú fjórði stærsti banki á Íslandi. 

Ríkisaðstoðin felst einkum í 900 milljóna króna hlutafjárframlagi ríkissjóðs til stofnunar nýja Byrs og samningi um víkjandi lán sem getur numið allt að 5 milljörðum króna. Segir ESA, að með þessum ráðstöfunum sé nýja Byr gert kleift að uppfylla kröfur Fjármálaeftirlitsins um 16% eiginfjárhlutfall.

ESA segir, að ríkisaðstoðin auðveldi endurfjármögnun nýja Byrs og uppgjör á kröfum milli gamla og nýja bankans, sem leiði að lokum til þess að kröfuhafar í gamla Byr eignist um 95% hlutafjár í nýja Byr, en hlutur ríkisins verður um 5%. Markmið aðstoðarinnar sé að viðhalda tiltrú á íslenskt fjármálakerfi, en líklegt sé að hrun nýja Byrs hefði orðið alvarlegt áfall, einkum fyrir innlánaeigendur á Íslandi.

Við núverandi aðstæður getur Byr ekki mætt fjárþörf sinni á fjármálamörkuðum. Að mati ESA eru ráðstafanirnar viðeigandi og í samræmi við aðsteðjandi vanda, þar sem þær geri nýja Byr kleift að uppfylla lögbundnar eiginfjárkröfur jafnframt því að undirbúa áætlun um endurskipulag á rekstri sem miðar að því að tryggja arðbæran rekstur til frambúðar.

Það dragi úr hugsanlegum neikvæðum áhrifum aðgerðanna á samkeppni að eigendur að gamla Byr hafi að fullu tapað stofnfé sínu og verði ekki bætt það tap. Kröfur lánadrottna gamla Byrs hafi jafnframt verið færðar niður.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK