Líklegt er að miklar sveiflur í hagvexti og verðbólgu hér á landi eigi sér frekar rætur í slakri hagstjórn en smæð og fábreytni íslenska hagkerfisins.
Er þetta mat Friðriks Más Baldurssonar hagfræðiprófessors en hann skilaði áliti á skýrslu Seðlabankans um peningamálastjórnun.
Í áliti sínu segir Friðrik að í skýrslunni fallist Seðlabankinn á að tilraunin um verðbólgumarkmið í peningamálum hafi mistekist, en að í henni skorti afgerandi tillögur um hvað eigi að taka við eftir gjaldeyrishöft. Að vísu sé talað um „verðbólgumarkmið plús“, þ.e. verðbólgumarkmið með hliðarráðstöfunum sem séu illa skilgreindar.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að rannsóknir sýni að á Íslandi sé erfitt að viðhalda stöðugu verðlagi til lengri tíma nema með meiri sveiflum í framleiðslu og atvinnustigi.