Breska blaðið Sunday Mail fjallar um Icesave-málið í dag og virðist túlka yfirlýsingar Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, um að Bretar fái brátt háar greiðslur úr þrotabúi Landsbankans þannig, að verið sé að selja breskar verslunarkeðjur í eigi bankans vegna niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar fyrir viku.
Fréttin er nokkuð einkennileg en blaðið segir, að Ólafur Ragnar þrýsti nú á að hlutur Landsbankans í fjórum breskum verslunarkeðjum verði seldur strax svo Ísland geti gert upp Icesave-skuldina og bjargað andlitinu.
Hins vegar sé útlit fyrir að breskir skattgreiðendur fái aðeins 56 sent til baka af hverju pundi, sem breska ríkið lagði fram til að borga Icesave innistæðueigendum út fé sitt. Icesave-skuldin nemi 2,3 milljörðum punda en sérfræðingar telji, að Landsbankinn fái aðeins um 1,3 milljarða punda fyrir bréfin í verslunarkeðjunum fjórum.
Um er að ræða hluti bankans í matvörukeðjunni Iceland, leikfangakeðjunni Hamleys, skartgripakeðjunni Aurum og tískufatakeðjunni House of Fraser.
Blaðið hefur eftir ónafngreindum heimildarmönnum úr verslunargeiranum, að þeir telji að íslensk stjórnvöld hafa markað þá stefnu, að selja mestallar eignirnar fyrir árslok. Lykilmenn í fyrirtækjunum segi hins vegar að enginn þrýstingur sé á sölu.
Mail segir, að Malcolm Walker, stofnandi og forstjóri Iceland, er sagður líklegasti kaupandinn að 67% hlut Landsbankans í fyrirtækinu. Hann sé talinn meta fyrirtækið allt á 1 milljarð punda og samkvæmt því sé hlutur Landsbankans aðeins um 950 milljóna punda virði.
Þá sé Aurum til sölu fyrir 200 milljónir punda. Jurek Piasecki, sem starfaði hjá Goldsmits keðjunni, sem er í eigu Aurum, þar til Baugur keypti fyrirtækið, er sagður hafa áhuga en hann vilji ekki greiða þetta verð.