Markaðir hafa brugðist hart við tilkynningu alþjóðlega matsfyrirtækisins Standard & Poor's um að horfum fyrir lánshæfiseinkunn bandaríska ríkisins fyrir langtímaskuldbindingar hafi verið breytt úr stöðugum í neikvæðar.
Hafa bandarísk hlutabréf lækkað í verði og ávöxtunarkrafa hækkað á bandarískum ríkisskuldabréfum. Þá hefur olíuverð lækkað á heimsmarkaði.
Þetta er í fyrsta skipti, sem S&P breytir horfum um bandaríska lánshæfiseinkunn í neikvæðar en einkunnin er AAA, sú hæsta sem fyrirtækið gefur.
Dow Jones hlutabréfavísitalan lækkaði um 1,89% eftir að viðskipti hófust í kauphöllinni á Wall Street. Þá lækkaði Nasdaq vísitalan um 2,07%.
Verð á hráolíu lækkaði um 2,66 dali tunnan á markaði í Bandaríkjunum og var 107 dalir nú síðdegis. Brent Norðursjávarolía lækkaði um 2,09 dali tunnan og var verðið 121,36 dalir.