Skúli Mogensen, sem fer fyrir hópi fjárfesta sem hefur tekið yfir MP banka, hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna umfjöllunar síðustu daga um málefni sín og afskriftir Landsbanka Íslands vegna lána til sín.
Yfirlýsingin er eftirfarandi:
„Á árunum 2000 til 2003 fjárfesti ég talsvert, bæði í skráðum og óskráðum hlutabréfum á Íslandi og erlendis. Þetta voru að langstærstu leyti hlutabréf í fjarskipta- og hátæknifyrirtækjum. Á þeim tíma taldi ég og Landsbanki Íslands að þau veð sem lögð voru til grundvallar þessum lánum, væru nægjanleg og áhættan takmörkuð. Í kjölfar falls netfyrirtækja, féllu bréf í flestum hátæknifyrirtækjum gríðarlega. Við fallið urðu þau hlutabréf sem ég hafði lagt að veði verðlítil fyrst á eftir. Það varð að samkomulagi á milli mín og Landsbankans að bankinn yfirtæki alla hlutabréfaeign mína sem fullnaðaruppgjör, í skráðum og óskráðum félögum þar með talið eign mína í Oz.
Það er ljóst að ef bankinn seldi hlutabréfin, sem áður voru í minni eigu, á lægsta gildi á árunum 2002 til 2003, hafa afskriftirnar verið talsverðar. Ef bankinn hefur hinsvegar beðið með að selja bréfin þar til hlutabréfamarkaðir tóku við sér á ný, hafa afskriftirnar verið mun minni eða jafnvel engar.
Það má til sanns vegar færa að sumar þeirra fjárfestinga sem ég fór í á árunum 2000 til 2003 voru gerðar meira af kappi en forsjá og tel ég mig hafa lært verulega á þeim mistökum sem ég gerði þá. Það er ekki síst í kjölfarið á þessu að ég hef lagt áherslu á að MP banka er með öllu óheimilt að lána gegn veði í eigin bréfum, ásamt því er bankanum óheimilt að lána til hluthafa sem fara með virkan eignarhlut, þ.e. yfir 10% hlut í bankanum. Jafnframt vil ég árétta að Fjármálaeftirlitið hefur fengið ítarlegar upplýsingar um uppruna þeirra peninga sem ég hef fjárfest fyrir, en það eru peningar sem ég eignaðist við söluna á Oz Communications til Nokia árið 2008.
Frá því í október 2009 hef ég fjárfest, í gegnum félag mitt Títan fjárfestingafélag ehf., fyrir um tvo milljarða króna á Íslandi, en það er í Carbon Recycling International ehf, Securitas hf, Thor Data Center ehf, Caoz ehf, Tindum ehf, Data Market ehf. og nú síðast í MP banka hf. Allar áðurtaldar fjárfestingar eru fjármagnaðar að öllu leyti með eiginfé mínu og ekkert tekið að láni.“