Stýrivextir óbreyttir

mbl.is/Ernir

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að halda vöxtum bankans óbreyttum og verða veðlánavextir áfram 4,25%. Er þetta í samræmi við væntingar greiningardeilda flestra fjármálastofnana.

Peningastefnunefndin segir í yfirlýsingu, að nokkrir misvísandi þættir höfðu áhrif á ákvörðun nefndarinnar. Annars vegar hafi verðbólguhorfur versnað, a.m.k. til skamms tíma, verðbólguvæntingar aukist og raunvextir Seðlabankans lækkað umtalsvert. Þá hafi niðurstaða atkvæðagreiðslunnar um Icesave-samninginn  einnig aukið hættu á veikari gengisþróun krónunnar.

Hætta á minni hagvexti

Hins vegar hafi hagvaxtar- og atvinnuhorfur versnað samkvæmt grunnspá Seðlabankans sem birtist í Peningamálum í dag og hætta sé á að hagvöxtur verði enn minni vegna niðurstöðu Icesave-atkvæðagreiðslunnar.

Þá segir bankinn, að þrátt fyrir veikari efnahagsumsvif hafi verðbólguvæntingar aukist að undanförnu og verðbólguhorfur til næstu ára versnað. Verðbólga hafi aukist undanfarna tvo mánuði og mældist tólf mánaða verðbólga 2,3% í mars. Spáð sé að verðbólga nái hámarki í rúmlega 3% síðar á þessu ári og haldist svipuð þar til í byrjun næsta árs.

Bankinn segir að meiri verðbólga en áður var spáð skýrist einkum af lægra gengi krónunnar og nýlegum verðhækkunum hrá- og olíuvöru. Að því marki sem verðhækkanirnar verða tímabundnar sé ólíklegt að þær hafi viðvarandi áhrif á langtímaverðbólguvæntingar og launa- og verðmyndun. Haldist gengi krónunnar stöðugt og að gefnum þeim slaka sem er til staðar í þjóðarbúskapnum er því spáð að verðbólga lækki á ný í markmið á seinni hluta næsta árs. Hins vegar virðist launahækkanir, sem felist í fyrirliggjandi drögum að kjarasamningum, heldur meiri en samræmist verðbólgumarkmiðinu til lengri tíma litið.

Gæti hægt á losun gjaldeyrishafta

Áætlun um losun gjaldeyrishafta hefur lítil áhrif á peningastefnuna til skamms tíma, vegna þess að fyrstu skrefin í tveggja áfanga áætluninni ættu að vera nokkurn veginn hlutlaus hvað varðar áhrif á gjaldeyrisforðann.

Þá segir peningastefnunefndin, að niðurstaða atkvæðagreiðslunnar um Icesave-samninginn hinn 9. apríl sl. hafi heldur aukið hættu á að krónan veikist, þar sem hún gæti haft áhrif á lánshæfismat ríkissjóðs og þar með lánskjör Íslands á erlendum fjármálamörkuðum. Það kunni að takmarka svigrúm peningastefnunefndarinnar á næstu misserum.

Niðurstaðan gæti einnig hægt á losun gjaldeyrishaftanna. Hins vegar dragi það úr neikvæðum áhrifum að ekki sé líklegt að efnahagsáætlunin með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum raskist.

Loks segir nefndin, að óvissa sé um í hvaða átt næstu vaxtabreytingar verði. Peningastefnunefndin sé reiðubúin til þess að breyta aðhaldi peningastefnunnar eins og nauðsynlegt sé með hliðsjón af því tímabundna markmiði hennar að stuðla að gengisstöðugleika og í því skyni að tryggja að verðbólga verði nálægt markmiði til lengri tíma litið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK