Í greinargerð lánshæfismatsfyrirtækisins Moody's með ákvörðun sinni um að halda lánshæfismati ríkissjóðs óbreyttu, eru nokkrir þættir teknir til sem leitt gætu til þess að matið yrði fært niður. Íslenska ríkið er sem kunnugt er einum flokki fyrir ofan „rusl,“ og má því ekki við frekari lækkun. Auk þess hefur lánshæfismat ríkissjóðs óbein áhrif á getu fyrirtækja til þess að taka lán.
Í greinargerðinni segir að erfitt sé að meta áhrif niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar um Icesave á erlenda fjárfestingu að svo stöddu. „Vegna smæðar hagkerfisins er ljóst að ein eða tvær stórar erlendar fjárfestingar myndu hafa mikil áhrif á hagvaxtarhorfur.“ Moody's nefnir vaxtarmöguleika í vatnsfalls- og jarðvarmavirkjun, en á móti að mikil andstaða sé hér á landi við erlent eignarhald í þeim geirum.
Hvað áhættuþætti varðar eru málaferli vegna neyðarlaganna nefnd sem einn hinn stærsti. „Moody's mun lækka lánshæfismat Íslands ef þessi áhætta raungerist og forgangur krafna vegna innstæðna breytist.“ Slík niðurstaða hefði neikvæð áhrif á greiðslur til Breta og Hollendinga úr þrotabúi Landsbankans.
Verði tafir á lánafyrirgreiðslu Norðurlandanna yrði það jafnframt til þess að þrýstingu yrði á lækkun lánshæfismatsins.
Þá er lögð á það áhersla að áfram verði sýnt aðhald í ríkisfjármálum. Stjórnvöldum er hrósað fyrir þann árangur sem náðst hefur í samstarfi við Alþjóða gjaldeyrissjóðinn. Samstarfsáætluninni ljúki hins vegar síðar á þessu ári, og mikilvægt sé að tryggja áframhaldandi aðhald til þess að auka trúverðugleika ríkisins sem skuldara.
Með tíð og tíma verða gjaldeyrishöftin, og afnám þeirra, veigameiri þáttur í lánshæfismatinu, segir í greinargerð Moody's. Afnám haftanna og aðgengi að erlendu fjármagni er mikilvægur þáttur í viðreisn íslensks efnahagslífs. Sé farið of geyst í afnámið geti það á hinn bóginn valdið því að gengi krónunnar veikist mikið. Erlendir krónubréfaeigendur, sem eiga fjármuni sem samsvara tæpum þriðjungi landsframleiðslu, vilji til að mynda ólmir koma fé sínu burt. Því verði að stýra röggsamlega.
Moody's gæta þess að einblína ekki á dökku hliðarnar og segja í niðurlagi: „Horfur geta breyst í stöðugar og lánshæfismatið á endanum batnað ef hagkerfið nær sér á strik hraðar en nú er reiknað með og ef gengi krónunnar helst stöðugt þegar höftin eru afnumin.“