Breska viðskiptablaðið Financial Times segir, að sumar af stærstu verslunarkeðjum Bretlands hafi áhuga á að kaupa meirhluta í matvörukeðjunni Iceland Foods ef skilanefndir íslensku bankanna ákveða að selja hlut sinn.
Segir blaðið, að markaðsvirði fyrirtækisins sé líklega á bilinu 1,7 til 2 milljarðar punda, 315-370 milljarðar króna. Landsbankinn á 67% hlut í Iceland og Glitnir um 7% en Malcolm Walker, forstjóri Iceland, á afganginn.
Blaðið hefur eftir þeim, sem þekkja til, að verslunarkeðjan Wm Morrison sé talin meðal þeirra sem hafi áhuga á að kaupa Iceland. Morrison, sem er fjórða stærsta verslunarkeðja Bretlands, sé að undirbúa að opna keðju kjörbúða og því sé líklegt að fyrirtækið muni skoða fjárfestingar á því sviði ef þær koma á markað.
Þá lýsti einn af stjórnendum keðjunnar J. Sainsbury því yfir fyrir rúmri viku, að það fyrirtæki muni skoða málið ef Iceland verði boðið til sölu.
Financial Times segir hins vegar ólíklegt, að Morrison og Sainsbury verði einar um hituna verði Iceland boðið til sölu og nefnir m.a. Asda, sem keypti keðjuna Netto UK á síðasta ári, Tesco og Co-operative Group, sem keypti keðjuna Somerfield árið 2008. Auk verslunarfyrirtækja kunni fjárfestingarfélög einnig að hafa áhuga. Iceland rekur um 750 verslanir á Bretlandseyjum.