Bílaframleiðandinn Ford, sá næst stærsti í Bandaríkjunum, tilkynnti í dag að fyrsti fjórðungur þessa árs hafi verið sá besti hjá fyrirtækinu frá árinu 1998. Sala á sparneytnari bílum jókst, ekki síst vegna hækkandi hrávöruverðs.
Ford var eini bandaríski bílaframleiðandinn sem ekki fór fram á fjárhagsaðstoð frá hinu opinbera og hefur nú skilað hagnaði átta ársfjórðunga í röð. Hagnaðurinn nú í ársbyrjun jókst um 22% á milli ára og var 2,55 milljarðar bandaríkjadala.
Fyrirtækið varar hins vegar við því að draga muni úr hagnaði á síðari hluta ársins vegna síhækkandi hrávöruverðs, árstíðabundinna sveiflna og minni hagnaðar fjármögnunararms fyrirtækisins. Þá verði lögð aukin áhersla á fjárfestingu til að tryggja framtíðarvöxt fyrirtækisins.