Yfirmaður sendinefndar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins gagnvart Íslandi segir, að vísbendingar um möguleika Íslands á erlendum lánsfjármörkuðum, séu jákvæðari en búast hefði mátt við eftir að Icesave-lögunum var hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu.
„Moody's staðfesti lánshæfiseinkunn Íslands og skuldatryggingarálag á Ísland hefur verið tiltölulega lág. En við erum að skoða þessi mál nánar," hefur Reutersfréttastofan eftir Julie Kozack. Hún er í sendinefnd AGS, sem kemur til Íslands síðar í vikunni vegna fimmtu endurskoðunar efnahagsáætlunar Íslands.
Reuters hefur eftir Kozack, að Íslendingar þurfi ekki að breyta áætlun sinni um afnám gjaldeyrishafta ef niðurstaða Icesave-atkvæðagreiðslunnar hefur ekki áhrif á stöðu Íslands á erlendum fjármagnsmörkuðum og peningamálastefnan bregðist með viðeigandi hætti við hærri verðbólgu og heldur minni hagvexti en búist var við.