Ekkert hefur gerst að undanförnu til að auka íslenskum neytendum bjartsýni en væntingavísitalan Gallup lækkar nú þriðja mánuðinn í röð.
Fram kemur að í Morgunkorni Íslandsbanka, að vísitalan lækkaði um 2,3 stig milli mánaða og mældist gildi hennar 55,5 stig sem er svipað og það var í apríl fyrir ári.
Allar undirvísitölur Væntingavísitölunnar, að mati á efnahagslífinu undanskildu, lækkuðu á milli mars og apríl. Þannig lækkuðu væntingar íslenskra neytenda til aðstæðna í efnahags- og atvinnumálum þjóðarinnar eftir 6 mánuði um 2,3 stig og mælist sú vísitala nú 86 stig. Mat á núverandi ástandi lækkaði einnig um 2,3 stig, en sú vísitala mælist aðeins 9,7.
Mest var lækkunin á vísitölunni sem mælir mat landans á atvinnuástandinu en hún lækkaði um heil 13,3 stig milli mánaða og mælist nú aðeins 48,7 stig.
Á hinn bóginn hækkaði sú vísitala sem mælir mat á efnahagslífinu um 3,9 stig og mælist hún nú 53,7 stig.