Héraðsdómur Reykjavíkur skar í dag úr um að innstæður í Icesave reikningum skuli teljast forgangskröfur í þrotabú Landsbankans. Í raun staðfestir héraðsdómur neyðarlögin svokölluðu, sem kváðu á um forgang innstæðna í þrotabú fjármálastofnana.
Almennir kröfuhafar höfðu gert kröfu um að innstæðurnar skyldu ekki teljast slíkar forgangskröfur. Hefði dómurinn komist að annarri niðurstöðu hefði það hleypt áætlunum um endurheimtur vegna Icesave innstæðna í uppnám, enda hefðu innstæðutryggingasjóðir Hollendinga og Breta þá fengið mun lægri upphæð úr þrotabúinu en ella.
Úrskurðurinn verður án efa kærður til Hæstaréttar.