Í mars 2011 voru skráð 178 ný einkahlutafélög samanborið við 164 einkahlutafélög í mars 2010, sem jafngildir um 8,5% fjölgun á milli ára. Á sama tíma voru 208 fyrirtæki tekin til gjaldþrotaskipta samanborið við 107 fyrirtæki í mars 2010, sem jafngildir um 94% fjölgun á milli ára.
Þetta kemur fram í nýjum tölum frá Hagstofunni en þetta er mesti fjöldi gjaldþrota á einum mánuði frá því bankakerfið hrundi haustið 2008.
Flest gjaldþrot í mars voru í byggingarstarfsemi og mannvirkjagerð. Fyrstu 3 mánuði ársins 2011 hafa 433 fyrirtæki orðið gjaldþrota. Er það rúmlega 47% aukning frá sama tímabili árið 2010 þegar 294 fyrirtæki voru tekin til gjaldþrotaskipta.
Flest einkahlutafélög eru skráð í flokka heild- og smásöluverslunar og viðgerða á vélknúnum ökutækjum.
Alls hafa 443 einkahlutafélög verið skráð ný á fyrstu 3 mánuðum ársins og hefur nýskráningum fækkað um rúmlega 5,5% frá sama tímabili árið 2010 þegar 469 ný einkahlutafélög voru skráð.