Arion banki færir skuldabréf sem gefið var út í tengslum við yfirtöku á innlánum SPRON til bókar sem áhættulausa eign í reikningum sínum.
Er þetta gert samkvæmt upplýsingum frá bankanum með samþykki Fjármálaeftirlitsins en ríkið veitti á sínum tíma skaðleysisyfirlýsingu vegna yfirtökunnar á innlánunum. Skuldabréfið er með veði í eignum Dróma, þrotabús SPRON, og nemur það 77 milljörðum króna.
Arion færir skuldabréfið til bókar sem áhættulausa eign í krafti virkrar ríkisábyrgðar á innlánunum en hins vegar hefur Dróma-bréfið ekki verið talið tækt til veðlánaviðskipta af Seðlabankanum. Þess í stað hefur Arion haft aðgang að veðtækum ríkisskuldabréfum sem bankinn hefur svo notað í veðlánaviðskiptum við Seðlabankann vegna lausafjárfyrirgreiðslu í tengslum við yfirtöku innlána SPRON.
Í fréttaskýringu í viðskiptablaði Morgunblaðsins í dag segir, að þessarar ríkisábyrgðar sé ekki getið í ríkisreikningi fyrir árið 2009, þó svo að Ríkisendurskoðun hafi gert athugasemd við að hennar sé ekki getið.