Tryggvi Þór Herbertsson segist hafna því algerlega sem Björgólfur Thor Björgólfsson segir um hann og störf hans sem efnahagsráðgjafa Forsætisráðherra í aðdraganda bankahrunsins.
„Þetta er rakalaus þvættingur sem þarna er settur fram,“ segir Tryggvi Þór. „Í byrjun ágúst 2008 átti ég mörg samtöl við Björgólf Thor um sameiningu Landsbanka og Glitnis. Aðalhugmyndin var sú að erlend starfsemi Glitnis yrði tekin yfir í danska banka Kaupþings og að innlenda starfsemin rynni inn í Landsbankann. Ég var í sambandi við Sigurð Einarsson [stjórnarformann Kaupþings] út af þessu og Kaupþingsmenn lýstu yfir áhuga á því. Ég átti einnig í viðræðum við Jón Ásgeir og Þorstein Má, en þessum þreyfingum lauk hins vegar um miðjan ágúst á fundi með Björgólfi Thor og Björgólfi Guðmundssyni. Þar sagði Björgólfur Thor að hann vildi ekki auka sína áhættu innanlands og að þeir myndu frekar vilja gera þetta sjálfir síðar á árinu.“ Þar með hafi málið dottið upp fyrir.
„Það að ég hafi talað um Aska Capital í þessu sambandi er alger fjarstæða og að ég hafi reynt að blanda Carnegie saman við þetta er hrein lygi. Ég hafði gert starfslokasamning við Aska þegar ég fór til forsætisráðherra og hafði því enga fjárhagslega hagsmuni af stöðu Aska,“ segir Tryggvi Þór, en í grein sinni segir Björgólfur Thor að Tryggvi hafi stungið upp á því að Landsbankinn tæki Aska Capital yfir.
„Það eina sem er rétt í grein Björgólfs Thor er að ég sagði eftir fall Glitnis að Landsbankinn yrði næstur og reyndis ég sannspár um það, en ég þurfti svo sem enga sérstaka spádómsgáfu til að sjá það fyrir.“
Tryggvi Þór segir að það sé óhæfa að Björgólfur Thor haldi úti vef þar sem hann ráðist á alsaklausa menn, sem hafi gert sitt besta í aðdraganda hrunsins. „Eva Joly spáði því að þegar fram liðu stundir myndu helstu gerendur í hruninu fara að ráðast á aðra til að færa athyglina frá sér og það er það sem er að gerast hér.“ Þá segir Tryggvi alrangt að sér hafi ekki verið treyst af forsætisráðherra.