Í nýlegri spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (World Economic Outlook) um þróun hagkerfa heimsins til ársins 2016 kemur Ísland afar illa út og eru hagvaxtarhorfur einna dekkstar hér á landi, að því er segir í frétt á vef Viðskiptaráðs.
Segir þar að af spánni megi ráða að raunveruleg hætta sé á því að efnahagsbatinn verði það veikur að uppsafnað velferðartap geti hæglega numið 2 til 3 þúsund milljörðum króna. Þegar horft er til alls tímabilsins, frá 2008 til 2016, þá verður meðalhagvöxtur hér á landi um 0,8% - að því gefnu að spá AGS rætist - sem er níundi slakasti árangurinn af þeim 183 löndum sem spáin nær til. Meðalhagvöxtur þeirra ríkja sem spáin nær til er tæplega 4%.
Stöðnun ekki kostur í stöðunni
„Litlu breytir ef horft er til
„endurreisnaráranna“, þ.e. 2010 til 2013 þá fæst sama niðurstaða eða
níunda neðsta sæti. Ef menn vilja teygja sig enn frekar og horfa til
2011 til 2016 þegar öll áhrif og eftirköst kreppunnar ættu að vera
komin fram þá er hagvöxtur enn afar veikur og er Ísland þá í 144 sæti
af 183 löndum. Hvernig sem horft er á þessar tölur þá er ljóst að
batinn er langt frá því að vera viðundandi,“ segir Viðskiptaráð.
Ráðið segir að bati hagkerfisins sé mikilvægur til að endurheimta þau lífskjör sem tapast hafa sem og viðhalda þeirri lífskjaraaukningu sem hagkerfið hefur burði til að veita. „Í Peningamálum Seðlabankans frá því 20 apríl síðastliðinn kemur fram að sú framleiðsla og lífskjör sem hafa tapast yrði að fullu endurheimt um mitt ár 2014. Það er vissulega jákvætt. Hinsvegar ber að forðast að falla í þá gryfju að stefna á stöðnun með það að markmiði að viðhalda ákveðnum lífskjörum heldur á markmiðið að vera að stuðla að og viðhalda stöðugri lífskjaraaukningu frá ári til árs. Stöðnun er ekki kostur í stöðunni.“