Verulega dró úr afgangi af vöruskiptum í marsmánuði miðað við sama mánuð í fyrra, miðað við tölur Hagstofunnar. Ástæðan fyrir þessu er mikill vöxtur innflutnings, á meðan verðmæti útflutnings breytist lítið miðað við sama tíma í fyrra.
Alls voru fluttar út vörur fyrir 51,3 milljarða í mánuðinum en á sama tíma nam verðmæti innflutnings tæpum 45 milljörðum. Vöruskiptaafgangurinn nam því 6,2 milljörðum í mánuðinum, en hann var tæplega 11 milljarðar á sama tíma í fyrra.
Sama þróun sést þegar litið er til fyrstu þriggja mánaða ársins.
Seðlabankinn færði í síðasta mánuði niður mat sitt á landsframleiðslunni á fjórða ársfjórðungi í fyrra og lækkaði hagvaxtarspá sína fyrir þetta ár og árið 2012. Ástæðan fyrir versnandi hagvaxtarhorfum er meðal annars sögð tilkomin vegna þess að innlend eftirspurn beinist í meira mæli að innflutningi en innlendri framleiðslu.