Greining Íslandsbanka segir, að nýgerðir kjarasamningar setji verulega pressu á Seðlabankann að styðja beint eða óbeint við gengi krónununnar en í samningunum er m.a. sá fyrirvari, að gengi krónunnar styrkist marktækt fyrir lok ársins.
Miðað er við að gengisvísitala krónunnar verði innan við gildið 190 í árslok 2012 en vísitalan er nú 218 stig.
Einnig er miðað við að kaupmáttur launa aukist yfir árin 2011 og 2012 og að verðbólga verði innan við 2,5% yfir árið 2012.
Íslandsbanki segir í Morgunkorni sínu, að áhugavert verði að fylgjast með áhrifum af þeim fyrirvörum sem settir voru gagnvart stjórnvöldum. Samhengi á milli fyrirvaranna og þannig muni 10% styrking krónunnar fram til ársloka 2012 að öllum líkindum bæði tryggja kaupmáttaraukningu og stuðla að verðbólgu innan við 2,5% á tímabilinu.
„Þetta setur hins vegar verulega pressu á Seðlabankann að styðja beint eða óbeint við gengi krónu. Hann verður þannig að fara sér hægar við aukningu gjaldeyrisforðans en annars væri ef krónan á að styrkjast að ráði. Einnig gætu Seðlabankamenn túlkað stöðuna þannig að vextir þyrftu að vera hærri en ella næstu misserin til þess að afstýra uppsögn samninganna og frekari óróa á vinnumarkaði. Þó verður að halda til haga að Seðlabankinn kemur ekki að þessu samkomulagi. Raunar hefur bankinn ítrekað lýst vilja til þess að auka gjaldeyriskaup sín og nýjasta gengisspá hans í Peningamálum í apríl gerir ekki ráð fyrir styrkingu krónu í líkingu við það sem lagt er til grundvallar í samningunum nú. Má í því ljósi velta fyrir sér hversu líklegt það sé að gengisforsendan í samningunum gangi eftir," segir Íslandsbanki.
Í Morgunkorni segir einnig, að þeir innan ríkisstjórnarinnar, sem hafi viljað auka erlenda fjárfestingu og uppbyggingu orkufreks iðnaðar, fái nokkra viðspyrnu í kjarasamningunum gagnvart þeim stjórnarliðum sem hafi verið neikvæðari gagnvart slíkri uppbyggingu.
Geti þeir fyrrnefndu vísað til yfirlýsingarinnar
þegar ýta þurfi áfram málum sem tengjast orkufrekum iðnaði. Áhrifin af slíku séu
í raun tvöföld því stóriðjufjárfesting stuðli bæði að því að uppfylla
skilyrðið um fjárfestingaruppbyggingu og innflæði gjaldeyris henni tengt sé
einnig lykilforsenda þess að hægt sé að styrkja krónuna næstu misserin.