Bandaríska flugfélagið Delta Air Lines, sem ætlar að hefja áætlunarflug milli Keflavíkurflugvallar og Kennedyflugvallar í New York í júní, segir að með því aukist talsvert valkostir inn- og útflutningsfyrirtækja hér á landi vegna víðtæks áætlunarkerfis flugfélagsins í Norður-Ameríku og öðrum heimsálfum.
Áætlunarflug Delta hefst 2. júní nk. og verður flogið fimm daga vikunnar að undanskildum þriðjudögum og miðvikudögum. Í tilkynningu frá Delta segir, að frá Íslandi flytji þotur félagsins t.d. ferskar sjávarafurðir, eldislax og -silung og aðrar útflutningsvörur til Bandaríkjanna og víðar. Hingað muni Delta flytja m.a. neytendavörur, véla- og varahluti, ferska ávexti, grænmeti og margt fleira.
Umboðs- og vörumiðlun fyrir flugfrakt Delta er hjá Bláfugli ehf. en Airport Associates á Keflavíkurvelli annast losun og hleðslu vélar Delta.
Flugfélagið flýgur til 347 borga í 64 löndum í öllum heimsálfum og notar til þess 700 þotur.