Fyrrverandi yfirmaður fyrirtækjaráðgjafar Kaupþings, Helgi Þór Bergs, þarf að reiða af hendi 642 milljónir króna til slitastjórnar bankans, ef dómur Héraðsdóms Reykjavíkur frá því í gær verður staðfestur af Hæstarétti.
Upphæðin er til komin vegna ábyrgðar Helga á lánum sem hann tók fyrir hrun, til hlutabréfakaupa í Kaupþingi. Annar dómur féll einnig í gær þar sem fyrrverandi yfirmaður viðskiptaþróunar, Þórður Pálsson, var dæmdur til að greiða tæpar 27 milljónir. Töldu þeir Helgi og Þórður sig ekki bera ábyrgð á lánunum m.a. þar sem Hreiðar Már Sigurðsson, þáverandi bankastjóri, gaf út yfirlýsingu í september 2008, um niðurfellingu ábyrgðarinnar. Ákveðið hafði verið á árinu 2005 að sjálfsskuldarábyrgð starfsmanna skyldi aðeins vera 10%.
Héraðsdómur komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að starfsmönnum hefði ekki verið lofað skaðleysi af hlutabréfakaupunum og ekki yrði litið á yfirlýsingu Hreiðars sem neitt annað en gjöf. Því ákvað dómurinn að riftun slitastjórnar Kaupþings á yfirlýsingu Hreiðars Más frá því í fyrra skyldi standa óhögguð.
Ekki var fallist á að vegna kvaða í lánasamningunum hefðu starfsmenn ekki getað selt bréfin og var ekki talið sannað að þeim hefði verið meinað að gera það. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis kemur þetta viðhorf fram, en árið 2008 seldu starfsmenn aðeins 0,6% af heildarhlutafé sínu í bankanum. Þeir voru í „gíslingu í meira en ár og jafnvel lengri tíma hjá banka með þessa stöðu. Nema það bara að segja upp eða hætta og þá vissi kannski fólk ekki í raun og veru hver staða þess var,“ sagði einn starfsmaður við RNA. Hefðu lykilstjórnendur selt bréfin sín hefði bankinn fallið.
Málin tuttugu varða 65 fyrrum starfsmenn Kaupþings en þar af hafa 35 þegar samið um sín lán og samþykkt að greiða 65% af kröfunum. Alls er óvíst hversu mikið innheimtist þar sem flestir þeirra sem neita að semja eru þeir sem voru með langhæstu upphæðirnar, fyrrverandi æðstu yfirmenn Kaupþings.
Persónulega fékk stjórnarformaðurinn Sigurður Einarsson skv. skýrslu RNA 6,3 milljarða til hlutabréfakaupa í Kaupþingi, en félög í eigu Sigurðar fengu þó lán þessu til viðbótar frá dótturfélögum Kaupþings erlendis. Hreiðar Már flutti sín lán í einkahlutafélag á árinu 2007.
Friðbert Traustason, formaður Samtaka starfsmanna fjármálafyrirtækja, segir engan hafa leitað til samtakanna vegna þessa og tekur fram að félagið hafi ekki komið að samningum um hlutabréfaviðskipti starfsmanna. Nokkrir hafa stofnað sín eigin fyrirtæki.