Gjaldeyrisþörf íslenska hagkerfisins mun aukast verulega á næstu árum. Endurgreiðslur af erlendum lánum eru þungar og endurfjármögnun er vart í augnsýn. Gjaldeyrisþörfinni verður að óbreyttu ekki mætt með öðru en veikingu krónunnar eða notkun á gjaldeyrisforða Seðlabankans.
Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Þorbjörns Atla Sveinssonar, hagfræðings hjá greiningardeild Arion banka, á morgunfundi bankans í gær. Þorbjörn benti á að gjaldeyrisforði Seðlabankans væri að langmestu leyti skuldsettur og til skamms tíma. Svigrúm Seðlabankans til gjaldeyriskaupa verður því afar lítið, nema talsverð veiking verði á gengi krónunnar.
Því blasir við, að mati Þorbjörns, að krónan muni veikjast, nema aðgangur að erlendum lánsfjármörkuðum batni verulega á næstu tveimur árum. Benti hagfræðingurinn á að miðað við vænt útstreymi gjaldeyris og tiltölulega óbreytt gengi krónunnar, yrði allur gjaldeyrisforðinn uppurinn eftir um það bil þrjú ár. Árið 2014 hefjast síðan greiðslur af skuldabréfi nýja Landsbankans til hins gamla, sem munu allt annað en styrkja erlenda stöðu og gengi krónunnar.