Ástæður þess að kreppan, sem Ísland glímir nú við, er jafn alvarleg og raun ber vitni er ekki einungis fjármálahrunið heldur röng efnahagsstefna frá árinu 2009, að mati Ragnars Árnasonar, prófessors í Hagfræði við Háskóla Íslands. Á fundi Deloitte um Skatta, gjöld og hagvöxt sagði Ragnar að hrun bankakerfisins hafi vissulega verið mikið áfall, en það hafi hins vegar lagst að stærstum hluta á bankakerfið sjálft. Framleiðsluþættir í hagkerfinu hafi verið óskertir. Röng efnahagsstefna hafi kostað þjóðina áttatíu milljarða í töpuðum hagvexti.
Upphafleg áætlun Seðlabanka, fjármálaráðuneytis og annarra gerði ráð fyrir því að kreppan myndi vara út árið 2009 en hagvöxtur tæki við árið 2010. Þetta hefur ekki ræst, heldur var samdráttur hagkerfisins árið 2010 sá þriðji mesti á lýðveldistímanum. Ragnar segir að forsendur hafi verið fyrir hagvexti í fyrra. Ónotað fjármagn, vinnuafl og náttúruauðlindir hafi mátt nota til framleiðslu og horfa beri til þess að víðs vegar um heiminn var hagvöxtur í fyrra. Hins vegar hafi efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar verið röng í nánast öllum efnum og hafi leitt til meiri samdráttar og dýpri kreppu en ella, segir Ragnar.
Skattahækkanir á einstaklinga og fyrirtæki geri fólki erfiðara að fá vinnu, því hver starfsmaður verður dýrari fyrir fyrirtækið og ágóði einstaklings af því að vinna er minni. Þá segir Ragnar að háir vextir hafi letjandi áhrif á fjárfestingu í atvinnulífinu og hagvöxt almennt og sama sé hægt að segja um „árásir á og hótanir við grunnatvinnuvegi þjóðarinnar,“ eins og Ragnar orðaði það á fundinum. Hann segir að ríkisstjórnin hafi reynt að grafa undan þeim atvinnuvegum sem þjóðin þarf hvað mest á að halda núna með alls kyns aðgerðum og hótunum. Að lokum segir hann að óstöðugleiki og ráðaleysi stjórnvalda leiði til óvissu og svartsýni í atvinnulífinu. Óvissa sé eitur í beinum fjárfesta og framleiðenda og því dragi óvissan úr framleiðslu.
Kostnaður við skattastefnuna 80 milljarðar
Afleiðingarnar séu ekki aðeins minni hagvöxtur heldur einnig samdráttur í tekjum ríkissjóðs á föstu verðlagi þrátt fyrir miklar skattahækkanir. Sagði hann að það ætti ekki að koma neinum á óvart að miklar skattahækkanir á krepputímum leiði til þess að tekjur ríkissjóðs dragist saman. Þetta auki svo hættuna á greiðslufalli ríkissjóðs.
Ragnar segir að skjóta megi á að efnahagsstefna ríkisstjórnarinnar hafi kostað þjóðarbúið um 80 milljarða króna í töpuðum hagvexti. Ber hann þá saman þann 3,5 prósenta samdrátt sem varð árið 2010 við 2,0 prósenta hagvöxt sem spáð var nokkrum misserum fyrr.
Hann segir jafnframt að útlitið í fjárfestingu sé ekki bjart ef marka megi opinberar spár. Fjárfesting skipti grundvallarmáli í hagvexti og sagan sýnir að fjárfesting hefur verið að meðaltali um 25 prósent af vergri landsframleiðslu, en lægst fór hún í 15 prósent áður en kreppan skall á 2008. Fjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu var um 12 prósent árið 2010 og gera spár ráð fyrir því að hún verði um 15 prósent næstu 2-3 ár. Ragnar segir að afleiðingarnar gætu orðið mjög alvarlegar ef þessi spá rætist.
Hækkun skatta hafi, ásamt öðru, gert kreppuna dýpri en hún hefði þurft að vera. Því segir Ragnar að lækkun skatta hljóti að verða hornsteinn í ábyrgri efnahagsstefnu, sem taka verði upp hið fyrsta.