Hagnaður Haga nam 1093 milljónum króna á síðasta rekstarári, sem lauk í mars, samanborið við 44 milljóna króna hagnað árið á undan.
Rekstrartekjur rekstrarársins námu 66.700 milljónum króna. Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta (EBITDA) nam 4384 milljónum króna.
Heildareignir samstæðunnar námu 21.830 milljónum í lok tímabilsins og eigið fé 3612 milljónum. Eiginfjárhlutfall félagsins var 16,5% í lok tímabilsins en skuldir nema rúmum 18 milljörðum króna.
Fram kemur í tilkynningu frá Högum, að lánasamningur félagsins, sem gerður var í október 2009, kveði á um gjalddaga í október 2011, með tveimur framlengingarheimildum til allt að 24 mánaða í senn. Samið hafi verið um framlengingu til október 2012, með frekari framlengingarheimildum eins og kveður á í samningnum.
Ný stjórn var kjörin á aðalfundi félagsins, en í henni eru Árni Hauksson, formaður, Erna Gísladóttir, Guðbrandur Sigurðsson, Hallbjörn Karlsson og Kristín Friðgeirsdóttir.
Árni, Hallbjörn og Kristín eru kosin ný í stjórn Haga í stað Péturs J Eiríkssonar, Steins Loga Björnssonar og Svönu Helen Björnsdóttur, sem voru í fráfarandi stjórn félagsins.