Tap á rekstri blaðsins DV nam 53 milljónum króna á síðasta ári, að því er kemur fram í tilkynningu frá blaðinu en uppgjörið miðast við tímabilið frá 1. apríl þegar nýir eigendur tóku við rekstrinum og til loka ársins. Sölutekjur námu 286 milljónum króna á tímabilinu.
Fram kemur að inni í tapinu sé 8 milljóna króna niðurfærsla á viðskiptavild sem myndaðist við kaupin á blaðinu og 9 milljónir króna í niðurfærðum viðskiptakröfum.
Í tilkynningunni segir, að fjöldi áskrifenda hafi tæplega tvöfaldast á tímabilinu og fjöldi notenda á DV.is hafi vaxið úr 130 þúsund á viku í 180 þúsund á viku. Áætlun geri ráð fyrir tapi fyrir afskriftir og fjármagnskostnað á bilinu 5 til 15 milljónir króna á yfirstandandi rekstrarári en gert sé ráð fyrir að reksturinn skili hagnaði árið 2012.