Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings breytti í dag horfum fyrir
lánshæfiseinkunn Íslands úr neikvæðum í stöðugar. Einkunnin er hins
vegar óbreytt, BB+, sem þýðir að íslensk ríkisskuldabréf eru flokkuð í
svonefndum ruslflokki.
Að sögn Paul Rawkins, sem fer með
málefni Íslands hjá Fitch, hefur hættan á að óleyst Icesave-deila leiði
til þess að fjármögnun í tengslum við efnahagsáætlun stjórnvalda og
Alþjóðagjaldeyrissjóðsins verði dregin til baka minnkað verulega.
Einnig er bent á í greinargerð með ákvörðun Fitch að stjórnvöld séu
fullviss um að endurheimtur úr þrotabúi Landsbankans muni skila á
bilinu 90-100% af kröfum vegna Icesave-reikninga.
Að mati
Fitch þá hafa horfurnar hér á landi skánað að undanförnu. Þrátt fyrir
að mikill samdráttur hafi verið í hagkerfinu í fyrra telja sérfræðingar
Fitch að ákveðinn stöðugleiki sé að komast á og hagvaxtarspá þeirra
fyrir þetta ár hljóðar upp á 2%.
Hinsvegar telja sérfræðingar
Fitch að nauðsynlegt sé að ráðast í víðtækar aðgerðir vegna
skuldsetningar einkageirans. Fram kemur í greinargerðinni að slíkar
aðgerðir séu forsenda viðreisnar hagkerfisins og að stöðugleiki komist
á fjármálageirann. Einnig er nauðsynlegt að viðhalda hagstæðum
viðskiptajöfnuði sem og auka á gjaldeyrisforðann til þess að skapa
forsendur þess að hægt sé að afnema gjaldeyrishöft og þar af leiðandi
fá skilaboð markaðarins um raunverulegt verðgildi krónunnar.
Fitch
segir í greinargerðinni að frekari ákvarðanir um lánshæfiseinkunn
íslenska ríkisins muni meðal annars taka mið að því hvort lokið verði
við efnahagsáætlun AGS, hvort að skýr merki um viðsnúning og hagvöxt
sjáist í hagkerfinu og hvort áfram verði haldið að koma böndum á
skuldasöfnun ríkissjóð innanlands og erlendis. Tekið er fram að
meðaltekjur á Íslandi séu óvenjuháar samanborið við þau ríki sem eru í
ruslflokki hjá Fitch og það sama megi segja um viðskiptaumhverfið hér á
landi. Hinsvegar er nauðsynlegt að mati sérfræðinga matsfyrirtækisins
að ráðast í aðgerðir vegna skuldsetningar einkageirans, afnema
gjaldeyrishöft og endurreisa eðlileg samskipti við erlenda kröfuhafa
ásamt því að koma á stöðugleika á gengismálin og árangur í þeim efnum
muni ráða mestu um hvort að lánshæfiseinkunnin verði hækkuð þannig að
íslenska ríkið teljist fjárfestingahæfur útgefandi skuldabréfa.